22 október 2007

"Glæsileg" endurkoma

Vaknaði eldspræk við vekjaraklukkuna í rauðabítið í morgun.
Dreif mig á lappir, út í bíl og brunaði niður í íþróttahús. Þar var tekið á móti mér með fagnaðarlátum, enda hef ég verið sérlegur styrktaraðili íþróttahússins sl. tvo mánuði. Þ.e.a.s. ég hef ekkert mætt þangað þrátt fyrir að hafa fjárfest í árskorti.
Steini hélt opnu fyrir mér einhverju hliði sem búið er að koma upp í afgreiðslunni og ég tríttlaði niður í kjallara í spinningtíma.
Nína var búin að segja að ég yrði að mæta snemma ef ég ætlaði að fá hjól. Hvaða vitleysa var þetta í henni, það var nóg af hjólum.
Ég greip eitt hjól og stormaði með það í átt að salnum, en viti menn, þar var spinningtíminn að enda. Stelpurnar höfðu skutlað hjólunum fram þegar kom að teygjuæfingunum.
Jæja, orð eru til alls fyrst og ég er alla vega búin að heilsa upp á spinningstelpurnar. Það gengur vonandi betur næst og ég stilli klukkuna rétt framvegis.
En svo erum við Maggi kostgangari minn í heilsuátaki. Aðaluppistaðan í fæðunni hjá okkur eru gulrætur og kálblöð.
Á rúmum mánuði höfum við lést um samtals 8 kg. Hann um sjö en ég um eitt.

|