26 október 2007

Verkfærakassinn minn

Ég er svo hrifin af verkfærakassanum mínum.
Sum verkfærin eru eldgömul, alveg frá því á síðustu öld. Eins og tangarsettið mitt. Þetta þóttu nú ekki merkilegir gripir þegar ég fjárfesti í þeim, en mikið afskaplega hafa þeir komið að góðum notum. Eins og áðan þegar ég þurfti að draga út hilluhaldaratitt úr IKEA bókaskáp sem ég var að setja saman.
Svo eru í verkfærakassanum tveir hamrar, 3 skiptilyklar - einn svo lítill og sætur að ég get haft hann í veskinu mínu. Svo er eitthvað dót, slatti af gömlum IKEA sexköntum, skrúfjárn af ýmsum gerðum og stærðum og svo flotta skrúfjárnasettið sem ég keypti í Húsasmiðjunni um daginn, því hver húsbyggjandi verður að eiga svona lágmarks kit í verkfæratösku.
Frá því að ég var að væla hér á blogginu í gær þá hef ég nú komið ýmsu í framkvæmd, ég pantaði tíma í olíuskiptum og skoðun. Bíllinn ferðast milli Frumherja og Dekkjahallarinnar á mánudaginn, sæll og glaður.
Ég er líka búin að vinna það stórafrek að setja sama tvo Billy-bókaskápa og í kvöld er ég að púsla glerhurðunum á þá.
Sexkanturinn virðist vera búinn að syngja sitt síðasta hjá IKEA. Í gamla daga fylgdi sexkantur með öllum vörum þaðan, svei mér ef hann var ekki með hnífaparasettunum líka. Núna er bara ætlast til að maður eigi sjálfur verkfæri og þá kemur svona heimilisverkfærakassi sér vel.
Svo ræddi ég við hann Gísla garðyrkjufræðing á Kaldá um garðinn minn. Hann kom með góðar hugmyndir sem þarf að útfæra. Annars sagði ég honum að ég gæfi honum frjálst hugmyndaflug, ég væri til í hvað sem er nema garðálfa og blómabeð sem þarfnast stöðugrar umönnunar.
Loks verð ég að láta það fylgja með að þessi nýja tölva mín er hreinn unaður. Þetta er fyrsta tölvan sem ég eignast og er glæný. Ég hef nokkrum sinnum fengið nýjar tölvur í vinnunni, en þetta er allt annað, þetta er mín tölva. Allar tölvur sem ég hef hingað til átt prívat og persónulega hafa verið uppgjafatölvur frá góðhjörtuðum vinum og vandamönnum.

|