29 október 2007

Það munaði engu

að ég henti gemsanum mínum.
Ég er ekkert búin að eiga þennan gemsa lengi, ég held ég hafi keypt hann sl. vor. Á laugardaginn var ekkert lífsmark með honum, ég gerði allt sem mér datt í hug, opnaði hann, lokaði honum, setti hann í hleðslu en það gerðist ekkert. Það kom reyndar mynd af batteríi og skilaboð um að það væri verið að hlaða rafhlöðuna.
Ég var farin að sótbölva þessari símatækni og öllu sem henni fylgir. Það tók hálfan mánuð að fá heimasímann tengdan, það eru þrjár vikur síðan ég bað um að sjónvarpið væri tengt við a-dé-ess-ellið, en ekkert gerist, það kemur enginn að tengja og ég er búin að hringja tvisvar og minna á mig. Skipir svo sem engu, Kolgríma er að verða búin að naga í sundur allar snúrur sem liggja að og frá sjónvarpinu og heimabíóinu.
Svo var ég alveg að bilast yfir gemsanum, var að spá í að henda honum bara í Eyvindaránna. Leitaði út um allt að fínu klukkunni sem ég keypti í Damerkurferðinni í haust en hún var nú aldeilis vel falin - fannst nú samt að lokum.
Þegar ég var alveg um það bil að snappa gerðist nokkuð merkilegt. Mér datt í hug að kveikja á símanum og viti menn, hann var í fínu lagi.

|