03 nóvember 2007

Hið ljúfa skógarlíf

Við Kolgríma erum afskaplega eitthvað ánægðar með lífið í Skógarkoti.
Mig langar mest af öllu að vera bara heima í nokkra daga, ekki liggjandi í pest heldur spræk og í stuði til að taka upp úr kössum.
Anna Berglind og Nonni eru í heimsókn og á morgun verður farið í að skoða dótið í bílskúrnum, henda reiður á hvað þar er og koma reglu á hlutina.
Í gær hafði ég villibráðarkvöld, anda- og gæsabringur og hreindýrakjöt. Í kvöld verður afgangurinn snæddur. Þau halda að ég sé svona gestrisin en það er misskilningur, ég þurfti að koma út firningunum frá því fyrra og eins þurfti ég að vinna þau á mitt band áður en þrælavinnan hefst á morgun.
Maður er nú orðinn eldri en tvævetur í hrekkjum.
En að henni Kolgrímu minni. Ótrúlega lifir þessi köttur ljúfu lífi. Hún býr hér mitt í þessum miklu veiðilendum og ólíkt rjúpnaveiðimönnum má hún veiða alla daga vikunnar. Hún nennir samt ekki á veiðar nema það sé þokkalega hlýtt úti. Eftir að það fór að snjóa hefur hún bara rekið trínið sem snöggvast út, kannski farið aðeins út á pallinn en svo kýs hún frekar að fara fram í bílskúr og leika sér þar.
Þegar ég ligg í baði finnst henni notalegt að liggja í baðvaskinum. Baðvaskurinn hérna í skóginum er miklu stærri og þægilegri en vaskurinn á Reynivöllunum.
Núna þegar ég sit við borðstofuborðið og er að pikka, er Kolgríma búin að hreiðra um sig í bólinu sínu við stofugluggann bak við mig.
Já, það er ekki slæmt að vera Kolgríma Högnadóttir.

|