21 nóvember 2007

Að eiga erindi

Mig langar að skrifa um byggingalist á Egilsstöðum.
Eða það væri auðvitað nær að tala um byggingastíl.
En aðgát skal höfðu í nærveru sálar svo ég held ég sé ekkert að tjá mig opinberlega. Ég vil ekki lesa eitthvað ljótt um húsið mitt svo ég reikna ekki með að aðrir kæri sig um slíkt hvað þeirra hús varðar.
En eins og Ísfirðingar eiga heillega götumynd af gömlum húsum, þá eigum við á Egilsstöðum heillegar götumyndir af Orrahúsum og kanadískum húsum.
Einu sinni heyrði ég um konu sem gat ekki farið í labbitúr af því að henni var ómögulegt að láta sjá sig á götu nema að hún væri að sinna ákveðnu erindi. Fólk myndi sjá það á henni að hún ætti ekkert erindi og hún vildi ekki að fólk horfði á sig og velti fyrir sér hvað ein kona væri að hugsa með því að ganga um göturnar í þvílíkri erindisleysu.
Ég hef verið að reyna að koma sjálfri mér úr húsi og í smá heilsubótalabbitúr en hef ekki haft erindi sem erfiði og ég sit alltaf sem fastast heima í stofu.
Í kvöld fann ég hins vegar út að það væri upplagt fyrir mig að spássera niður í þorpið og heilsa upp á hann kisa sem ég er að passa.
Og þar sem ég var búin að finna mikilvægt erindi þá klæddi ég mig vel og arkaði af staði.
Það fór ekki milli mála að hér var á ferð kona að sinna mikilvægu erindi.

|