30 nóvember 2007

Ég er svo íslensk

Eða það fannst mér alla vega í dag.
Ég fór í nýja Hagkaup í Holtagörðum. Hvað er íslenskara en að rangla um í nýju verslunarhúsnæði.
Það sem gerði þetta enn þjóðlegra var að um búðina fóru litlir leikhópar og léku eitthvað skemmtilegt. Konur í Hagkaupssloppum, flugfreyjur að minna á neyslu. Svo var Páll Óskar að syngja meðan ég skoðaði bleik náttföt. Það var brasshljómsveit að leika í matvörudeildinni og þegar ég var búin að fara stóran hring í húsnæðinu, þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla, var Birgitta Haukdal að taka lagið í búsáhaldadeildinni.
Yndislegt. Allt á sama stað. Tónleikar og tilboðsvörur.

|