28 nóvember 2007

Í góðu yfirlæti

... í Reykjavíkursveitinni.
Í dag var ég skorin og skeytt saman aftur hjá doktor sæta Sívagó. Þegar ég vaknaði upp var mér fært heimsins besta kaffi, enda var ég orðin nokkuð kaffiþyrst eftir hafa fastað frá því í gærkvöldi.
Mirek tengdasonur mínn sótti mig og fór með mig alla leið upp í Reykjavíkursveitina til Önnu Berglindar.
Hér hefur svo verið stjanað við mig og ég hef haft það afskaplega eitthvað ljúft. Það er búið að setja jólaljós í glugga og meðan leikin var jólatónlist á einhverri útvarpsstöðinni, stóðu Anna Berglind og Selma í smákökubakstir í eldhúsinu.
Mér finnst ég bara vera gengin í barndóm. Nema ég fékk að smakka á bakkeslinu, það var ekki sett beint niður í stóra tindós og hún innsigluð eins og gert var á bernskuheimili mínu.
En ég sem sagt læt bara fara vel um mig hér á þessu myndarheimili.
Já, gleymdi næstum, áðan þegar ég vaknaði þá sá ég að það gúlpaði eitthvað á handleggnum á mér í olnbogabótinni og viti menn, doktor sæti Sívagó hafði sent mig heim með nál í æð. Ég varð því að ljúka aðgerðinni sjálf og slíta draslið úr mér.

|