09 desember 2007

Dagur með mömmu

Ég átti afar ljúfan dag með mömmu í gær.
Ég var komin niður á Seyðisfjörð um hádegi, ég hafði tekið að mér smá verkefni og ákvað að sitja hjá mömmu meðan ég væri að vinna það.
Ég held ég ætti að gera þetta oftar, málið er ekki að halda uppi stöðugum samræðum, þetta snýst bara um nærveru. Og þó mamma spyrji mig oft sömu spurninganna gerir það ekkert til, ég læt sem ég hafi aldrei heyrt þær fyrr þó ég sé búin að svara þeim nokkrum sinnum síðustu mínúturnar. Aðalatriðið er að hún er að brjóta heilann og við erum saman.
Hún var að spyrja mig um tengdasyni mína, hvað þeir heita og hvað þeir gera. Hvort þetta væru góðir menn og hvort dætur mínar væru hamingjusamar með þeim. Það er ljúft að heyra að mömmu er annt um afkomendur sína.
Ég er þakklát fyrir hvað mamma heldur sinni ljúfu lund þrátt fyrir heilabilunina. Það er dapurlegt að sjá í augum gamla fólksins að hugurinn er í raun farin, það er ekki lengur hægt að ná sambandi við einstaklinginn sem á þessi fjarrænu augu og þetta svipbrigðalausa andlit.
Meðan enn færist brosglapi í augu mömmu og andlitið ljómar þegar ég kem þá læt ég mig það litlu skipta hvort hún spyr mig einnar spurningar hundrað sinnum eða hundrað spurninga einu sinni.

|