16 desember 2007

Kjöt og kærleikskúlur

Jæja, þá er maður eins og mús að draga í holu.
Frystirinn er að fyllast af villibráð og öðru góðgæti. Tilboðssteikum úr Bónus, hreindýrakjöti og fuglum sem í haust flögruðu um hér á Héraði og heiðunum í kring. Þetta er akkúrat rétti tíminn til að pakkfylla frystinn. Eins og maður nái svo sem að elda þetta allt um jólin, sumt geymist fram að páskum og svo eru firningar þegar vorið kemur og grilltíminn byrjar.
En í dag er jólamarkaður í gamla Barrahúsinu á Egilsstöðum og þar verð ég ásamt Soroptimistasystrum mínum að selja kærleikskúlur til styrktar lömuðum og fötluðum. Þessar kúlur eru eigulegir gripir sem listamenn þjóðarinnar hafa hannað. Í ár er kúlan eftir Eggert Pétursson og heitir Árstíðirnar.
Nú er bara að taka peningaveskið sitt og storma í Barra, kaupa jólatré og kærleikskúlur og kíkja á skemmtilegan jólamarkað. 1.000 kr. af hverri seldri kúlu verða eftir í heimabyggð og í fyrra var ágóðinn notaður til að kaupa þjálfunarbekk fyrir sjúkraþjálfunina á sjúkrahúsinu hér á Egilsstöðum.
Skúli í Barra ætlar að vera búinn að finna handa mér jólatré. Ég vil fá 50 cm hátt blágreni í Skógarkotið. Svo skreyti ég það annað hvort með litlum rauðum eplum eða litlum rauðum hjörtum sem mamma heklaði fyrir mörgum árum síðan.

|