11. desember
11. desember er merkilegur dagur hjá okkur systrum.
Anna Guðný fæddist þann dag 1956 en ég var skírð þann dag 1958.
Í tilefni dagsins í gær fór ég í kvöldkaffi niður í Kelduskóga, úðaði í mig gúmmelaði og gotterí og spjallaði við Önnu Guðnýju og afmælisgestina.
M.a. var það rifjað upp að þetta væri nú skírnardagurinn minn. Þegar Anna Guðný var skírð voru teknar fjölskyldumyndir í bak og fyrir. Pabbi, mamma, amma Rannveig, strákarnir og litla prinsessan. Pabbi að rifana úr monti yfir að hafa loksins í 5. tilraun tekist að búa til stelpu.
Svo kom ég tæpum tveimur árum seinna. En það var nú frekar hversdagslegur viðburður, ég var ekkert óvenjuleg. Augu, eyru, nef og munnur. Bara lítil stelpa og 6. barnið hjá hjónunum á Neðstutröðinni.
En það varð nú samt að ausa gripinn vatni og koma krílinu í kristinna manna tölu. Vinir og vandamenn fengu boð um kaffisamsæti og það vantaði ekki að myndavélin var dregin upp.
Og hvert var nú myndefnið? Skírnarbarnið? Skírnarbarnið, pabbi, mamma og systkinin með ömmu?
Nei, ó, nei. Myndirnar sem til eru úr skírninni minni sýna frú Sigríði prestsfrú meðal annarra veislugesta, veisluborðið og afa með spenntar greipar yfir bumbunni sinni á spjalli við séra Gunnar.
Ekki ein mynd af mér, ekki einu sinni að það glitti í mig á meðal veislugesta.
Kannski var ég aldrei skírð, kannski var þetta bara eitt stórt samsæri.