Ólíkar jólahefðir
Á að opna jólakortin þegar þau berast eða á aðfangadagskvöld?
Þetta var sú jólavenja sem okkur Finni gekk verst með þegar við fórum að halda saman jól.
Við komum af ólíkum heimilum með ólíkar venjur og ég var ótrúlega sveigjanleg í samningaviðræðum um hvaða venjur yrðu teknar upp á okkar heimili.
Mér var alveg sama þó við myndum alltaf borða rjúpur, heima var ekki föst venja hvað var borðað á aðfangadag, bara eitthvað gott. En laufabrauðið var absalút eitthvað sem ég vildi halda áfram að fá á jólunum enda hafði ég vanist því frá blautu barnsbeini.
Þetta olli engum deilu. Ekki heldur hangikjötið á jóladag og að jólapakkarnir yrðu opnaðir eftir matinn á aðfangadagskvöld - mjög fastar venjur.
En þegar kom að jólakortunum ætlaði allt um koll að keyra. Finnur ólst upp við að kortin voru opnuð strax og þau bárust en ég ólst upp við að þau voru opnuð á aðfangadagskvöld og pabbi las upphátt á kortin. Síðan gengu kortin hringinn og allir skoðuðu þau. Svona hafði það alltf verið og svona vildi ég hafa það áfram. Mér fannst allt eins hægt að opna pakkana fyrir matinn eins og að opna kortin fyrir jól.
En til að hægt væri að halda jól án þess að deila um það allan desember hvernig ætti að meðhöndla kortin þá sömdum við um það að önnur hver jól mátti opna þau fyrir jól og hin jólin ekki fyrr en á aðfangadag.
En eitthvað vildi þetta riðlast því Finni minnti alltaf að síðast hefði þau verið opnuð á aðfangadag.
Svo til að kóróna allt þá er ég farin að opna kortin bara þegar þau koma, ég man aldrei hvernig þetta var um síðustu jól.
Ég er sem sagt farin að laumast í jólakortin og í gær þá spilaði ég jólakortið frá Fróða, hann var svo sniðugur að leika nokkur jólalög á disk og senda sem jólakort.
Jóladiskurinn minn í ár.