25 desember 2007

Jóladagsmorgun

Þá er maður úttroðinn af góðgæti.
Krakkarnir, dæturnar og tengdasynirnir, gáfu mér alls konar dekurdót í jólagjöf. Hálfs fermetra konfektkassa frá Anton Berg, allsherjar dekur á snyrtistofunni minni heima, bók að lesa og yndislegt freyðibað. Ég verð eins og dekurdúlla í stjörnuklassa á næstunni.
Mér var lofað kaffi í rúmið, það var ekki einu sinni að ég hefði beðið um það. Mér var bara sagt að ég hefði staðið mig svo vel í matreiðslunni að ég fengi kaffi í bólið og af því að hreindýrið lukkaðist svo vel var tilkynnti að ég fengi líka með því. En eitthvað virðist þetta hafa gleymst, alla vega sofa húsráðendur á sínu græna eyra.
Æi, ég nennti nú ekki að bíða fram yfir hádegi með að fá kaffið í rúmið svo ég er búin að færa mér það sjálf.
Í dag er hinn árlegi náttfatadagur hjá mér. Reyndar þurfum við hér í Reykjavíkurhálendinu að bregða okkur niður á láglendið í 101 til Gunnhildar og Mireks og borða jólahangikjötið í kvöld og þá verð ég víst að fara í eitthvað annað en náttföt. Jafnvel þótt þetta sé bleiku blúndunáttfötin sem ég valdi mér undir söng Páls Óskars þar sem hann var að syngja, hann sjálfur í eigin persónu, í Hagkaup í Holtagörðum.
Vona að þið öll eigið afskaplega ljúfan jóladag, liggið á meltunni, njótið jólagjafanna sem þið fenguð og látið ykkur dreyma fallega dagdrauma.

|