Óveður og rafmagnsleysi
Það er gott að búa í Skógarkoti.
Regnið lemur húsið og stormurinn sveigir trén í skóginum í mestu hviðunum. Rafmagnið kemur og fer. Það hefur verið rafmangslaust í mest allt kvöld en ég hef haft kveikt á mörgum kertum og við Kolgríma og Rúsína höfum haft það afskapleg notalegt. Súbbi er inn í bílskúr og ég er alveg áhyggjulaus.
Það hefur lítið fokið hér í götunni, reyndar hefur það komið mér á óvart því það er svo mikið af byggingadóti sem hefði getað lagt af stað í veðurhamnum.
Ég fór út í kvöld og gekk frá dóti sem kom í ljós undan snjónum úti á palli svo það hefur allt sloppið hér hjá mér.
En það hefur bara verið ein og ein ljóstíra niður í þorpi og það hefur nánast verið kolniða myrkur á Héraði.
Rúsína hoppar um í rúminu mínu, er í miklum veiðiham, en Kolgríma kúrir á stól framan við dyrnar. Henni er ekkert gefið um það að vera nálægt þessum kettlingi. En hún er aðeins sáttari við litlu kisu í dag en í gær.
En fátt er svo með öllu illt. Það er gott að þetta veður gengur yfir landið í dag fyrst það þurfti endilega að koma, það hefði ekki verið gaman að hafa þetta veður á morgun. Það er líka gott að nú hefur tekið upp allan snjó af pallinum því annað kvöld á hann að gera mikið gagn þegar ég og gestir mínir förum að horfa yfir byggðina og dáðst að öllum flugeldunum sem ég vona að Egilsstaðabúar sendi upp í loftið.
Sjálf keypti ég bara knöll og stjörnuljós, en til að geta horft á flugeldana með góðri samvisku þá setti ég bara smá pening í flugeldasýninguna hjá björgunarsveitinni okkar. Ég er ekki með skothæfileika. Anna Berglind fór að háskæla þegar hún var lítil og ég var að bardúsa við að skjóta upp flugeldum, hún var svo hrædd um að ég myndi skjóta niður tunglinginn.
Ég er ekki frá því að veðrið sé að ganga niður.