28 desember 2007

Andi jólanna

Hver er hann þessi jólaandi?
Hann er svona eitthvað í ætti við ástina. Eitthvað sem maður upplifir inn í sér, ljúfsár tilfinning sem ekki er hægt að lýsa.
Maður hangir í bernskuminningum, heldur í gamlar hefðir en samt koma jólin hvering sem á stendur og hvort sem maður gerir allt sem telst ómissandi eða ekki.
Þó maður sé lokaður inn á sjúkrahúsi með ástvini, tepptur einhvers staðar út í heimi og veit ekki hvort maður komist heim fyrir jól.
Hangikjöt, rjúpur, piparkökur, laufabrauð og jólablanda. Ora baunir og rauðkál. Jólatré, jólalög, jólakort, jólaföt og jólasveinar.
Það sem mér finnst allra mest jóla, er Heims um ból. Það fara alltaf að trilla niður tár þegar ég heyri það. Sú nóttin var svo ágæt ein, ég fæ alltaf kökk í hálsinn. Ég hugsa um löngu liðin jól með Binna frænda, pabba og með Finni.
Alveg sama hendir mig um áramótin þegar Nú árið er liðið er sungið eftir að gamla ártalið er horfið af skjánum og nýtt ártal birtist. Þá fyllist ég alltaf sömu saknaðartilfinningunni, sem samt er svo ljúf og falleg.
Jólakveðjurnar í útvarpinu, ef jólaandinn er ekki farinn að láta á sér kræla er alveg öruggt að hann flæðir um sálina þegar Gerður G. Bjarklind fer að lesa jólakveðjurnar. Hvað ætlar Rúv að gera þegar Gerður safnast til feðra sinna? Hætta þá jólin að koma?
Svo er það kókauglýsingin, hún er sko alveg ómissandi. Ég verð 14 ára á nóinu, hún er næstum eins ómissandi og Gerður G. og Heims um ból.

|