29 desember 2007

Rúsína

Í gær fjölgaði hér í Skógarkoti.
Ég fór norður í Fellabæ og ég fékk obbolítinn og yndislega sætan kettling.
Fyrst var ég að hugsa um að láta kisu litlu heita Lilju Fönn í höfuðið á Lilju og Fannari sem ætluð að fá kisu litlu en urðu að hætta við.
Núna þegar ég er búin að eiga þessa litlu rúsínu í sólarhring þá held ég að ég láti hana bara heita Rúsínu. Hún er ótrúlega skemmtileg og góð.
Kolgríma hefur verið í fýlu síðan Rúsína kom. Hún er búin að húka í allt kvöld undir rúmi í gestaherberginu. Æi, hún hlýtur að jafna sig.
Ég tók Rúsínu með mér á Seyðisfjörð til að sýna mömmu hana. Það er nefnilega svo gott að á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði eru mannlegir þættir í hávegum hafðir og maður má koma með gæludýr í heimsókn. Enda lifnaði yfir heimilismönnum þegar þessi litla sæta kisa kom.
Það kom blik í augu sem starað höfðu líflaus út í loftið og bros færðist á andlit. Allir sem vildu fá að halda á kisu fengu það og það var svo gaman að sjá gleðina sem lifnaði hjá gamla fólkinu.
Núna liggur kisa litla í sófanum við hliðina á mér og malar og malar. Ég vona að Kolgríma mín sætti sig fljótt við að við erum orðnar þrjár í kotinu og að kisurnar verði góðar saman.

|