Áramótaskaupið
Ég fattaði nú ekki djókið nema í einu og einu atriði.
Ég horfi svo lítið á sjónvarp svo ég þekkti ekki þessa þætti sem Skaupið byggðist á.
Besta atriðið og það sem ég hló mest að var Remax-auglýsingin.
Kannski er það af því að þegar ég var krakki þá var sjónvarpsdagskráin svo rosalega lítið spennandi að það skemmtilegasta voru auglýsingarnar.
Við systur kölluðum á hvor aðra "auglýsingar, auglýsingar, komdu, það eru auglýsingar". Svo horfuðum við á Árna Tryggva lúlla undir sæng frá Dún- og fiðurhreinsuninni, Bessa Bjarnason í Kórónafötum á flótta undan krimmum og svo allar þessar yndislegu húsgagnaauglýsingar sem ég held að megi finna núna á YouTube.
En allra mesta uppáhaldið var auðvitað Badidasauglýsingin, þar sem munúðarfull kona lá í freyðibaði sem flæddi yfir baðkarsbrúnina, það var toppurinn.
Kannski er ég bara svona rosalega mikið auglýsingafórnarlamb sbr. það að gamla góða kókauglýsingin er einn af nauðsynlegum þáttum jólanna í mínum huga.
En mér datt í hug að næst mætti kannski bara sleppa Skaupinu og stórgræða með því að selja tímann sem því er ætlaður til auglýsenda. Skilyrðið væri að auglýsingarnar væru fyndnar.