21 janúar 2008

Versti dagur ársins

Kannski hjá Birni Inga og gamla R-listanum í Reykjavík.
En ekki hjá mér. Þetta hefur verið góður dagur hjá mér hvað sem mbl.is segir.
Ég byrjaði daginn í sjúkraþjálfun þar sem ég fékk að vita að ég er með tognaða öxl, búin að vera með hana tognaða síðan í fyrravetur. En nú á að laga þessa axlardruslu.
Svo mætti ég í vinnuna en var snúið við á tröppunum því ég átti að mæta með morgunmat í dag. Ekki lengi að bjarga því og við sátum öll og spjölluðum yfir kaffi og kruðeríi.
Eftir vinnu fór ég að lesa á spítalanum og svo kemur rúsínan í pylsuendanum, ég mætti LOKSINS í ræktina. Reyndi að laumast inn án þess að Steini yrði mín var en hann sá mig en gerði samt ekkert mikið grín að mér.
Loks skellti ég mér í ljós til að ná þessum gráskitulega húðlit af mér fyrir þorrablótið.
Kvöldið verður svo bara áframhaldandi dekur og huggulegheit, eins og reyndar öll vikan framundan.
Framundan eru tímar í ræktinni, ljósum, á snyrtistofunni, á hárgreiðslustofunni, út að borða og svo partý og þorrablót á föstudaginn.
Borðið sem ég verð við á þorrablótinu heitir held ég Hálftaf, sem ég geri ráð fyrir að sé eyrnamark á rollu.
Til að ná þessu öllu hef ég samið um einn og hálfan dag í frí frá vinnu.

|