Gaman í vinnunni
Ég er svo heppin að vera í góðri vinnu.
Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt. Ég hitti alls konar fólk og er í tengslum við fólk um allt land.
Það ríkir góður andi á mínum vinnustað.
Stundum veit ég ekkert fyrirfram hvað dagurinn ber í skauti sér. Í morgun var ég með ákveðin plön um hvað ég ætlaði að gera í dag en svo var eitt og annað sem kom upp á sem ég hafði ekkert átt von á. Samt tókst mér að gera flest af því sem ég hafði ráðgert, m.a. að taka heilmikið til á þessum fjölmörgu fermetrum af borðplássi sem ég hef til umráða. Ótrúlegur fjöldi af alls konar bækingum og blaðadrasli fór í ruslafötuna og eitt og annað fór á þá geymslustaði sem það átti að vera komið á fyrir mörgum mánuðum.
En svo kom óvænt og skemmtilegt atvik. Sýsluskrifstofan er á sömu hæð og ég er að vinna á og það var hóað í mig til að vera vottur við giftingu.
Ég óska brúðhjónunum velfarnaðar, þau vita alveg hvað þau voru að gera, búin að búa saman í alla vega 15 ár. Hamingjuóskir til þeirra.
Svo verður bara haldið áfram að taka til á skrifstofunni eftir helgi, morgundagurinn fer í vinnuferð á Höfn í Hornafirði. Gaman, gaman, nýtt kortatímabil og útsala í Lóninu - einni af betri fataverslunum landsins.