16 janúar 2008

Barnalæsingar

Ég þakka Guði fyrir góða heilsu.
Fyrst og fremst af því að ég á mjög erfitt með að opna lyfjabox með barnalæsingum. Ég þarf næstum á áfallahjálp að halda þegar ég lendi í að kljást við barnalæsingar - samt er nokkuð liðið síðan ég komst af barnsaldri.
Ég á munnskol í flösku og það er mér alltaf hausverkur og kostar hækkaðan blóðþrýsting að komast að innihaldinu.
Það er vel skiljanlegt að lyf og hættuleg þvottaefni þurfa að vera óaðgengileg fyrir börn, en mér finnst nú allt í lagi að kona á miðjum aldri ráði við þessar pakkningar án þess að fara á taugum.
Svo eru alls konar óskiljanlegar pakkningar utan um matvörur. Krydd t.d. það kostar oft geðheilsuna að komast að innihaldinu í nýjum kryddbauk. Meira að segja tannkrem er með álímdu plasti utan um tappann, plastinnsigli og svo til að kóróna allt er líka komin lítil álþynna sem maður þarf að ná af (og getur verið snúið) áður en maður kemst að innihaldinu.
Af hverju eru bara ekki lyf og matvæli í niðursuðudósum sem ekki er hægt að opna nema á þar til gerðum stofnunum? Þá ætti öryggið að vera tryggt.
Ég legg alla vega til að það fylgi svona neyðartafla með, ein taugaróandi. Nú eða bara að það væri aðvörun á umbúðunum að fólk sem ekki er með handverksnám að baki láti það vera að kaupa viðkomandi vöru.

|