08 febrúar 2008

8. febrúar

Jæja, þá er runninn upp þorrablótsdagur á Völlum.
Ég er búin að hafa til öll föt og allt skart sem ég þarf að nota í kvöld og búin að finna til tösku undir allt dótið.
Það er samt best að pakka því ekki strax því Klófríði finnst þetta tilstand svo skemmtilegt og þessi litla kisa er búin að vera að drösla töskunni hér fram og til baka um gólfin.
Þetta er alveg ótrúlega líflegur og skemmtilegur köttur. Hún heldur henni Kolgrímu minni í þjálfun því nú fær Kolgríma ekki næði til að dorma alla daga, hún er dregin í leiki, slagsmál og hlaup um húsið. Þegar Kolgríma er búin að fá alveg nóg finnst henni gott að leita næðis í bílskúrnum og lúra þar á ullargardínum sem voru í stofunni á Reynivöllunum.
Klófríður hefur líka fundið upp á því að draga eitt og annað í bólið sitt, þannig að nú er ég búin að læra það að ef eitthvað hverfur, eins og einn sokkur, þá eru miklar líkur á að hann sé í bóli Klófríðar.
En í kvöld kemur í ljós hvort fleiri en við nefndarmenn höfum gaman af dagskránni sem við settum saman.
Stóra spurningin er hins vegar hvort að Jón Guðmundsson fyrrum barnakennari og fyrrum vinur Eymundar í Vallanesi kemst austur til að stjórna fjöldasöng. Eitthvað voru menn í gær að hafa áhyggjur af veðurspá og flugsamgöngum.
En þetta kemur allt í ljós og eins og góður Íslendingur hugsar þá segir ég nú bara, æi þetta reddast.

|