Í morgunsárið
Þetta hefur verið frekar undarlegur morgun.
Ég snéri höfðinu eitthvað snöggt til þegar ég var að fara á lappir og það var rétt liðið yfir mig. En framúr komst ég og þá blasti við mér ótrúleg sjón. Kolgríma og Klófríður kúrðu saman á stól framan við herbergið mitt. Ja, hérna, ekki átti ég nú von á að þetta ætti eftir að ganga svona vel.
Nú, ég gat ekki búið mér til kaffi því ég gleymdi að kaupa kaffipoka í gær. Kom svo sem ekki að sök, fékk mér bara stóran sopa af lýsi áður en ég lagði af stað í vinnuna.
En þá var næsta uppákoma. Þegar ég ætlaði að bakka honum Súbba mínum út úr bílskúrnum þá var bara búið að leggja í stæðið framan við bílskúrsdyrnar. Eins gott að ég leit í baksýnisspegilinn áður en ég gaf allt í botn út.
Gatan mín er svo illa rudd að það er erfitt fyrir þá sem eru að vinna í húsunum í kring að koma bílnum fyrir svo einhver brá bara á þetta ráð að planta bílnum sínum í mitt stæði. Æi, ég vona að ég fái nú að hafa þetta bílastæði mitt í friði.