17 febrúar 2008

Tímamót í lífi Klófríðar

Í dag fór Klófríður litla út í fyrsta sinn svo orð væri á gerandi.
Hún kunni mjög vel við sig úti á palli, enda er bara notalegt úti. Ég sá á skiltinu fyrir Fagradal að þar er 10°C hiti.
Hún fékk nú ekki að vera lengi úti og hún grenjaði hástöfum þegar ég tók hana inn aftur. Hún er alveg rosaleg væluskjóða ef þannig ber undir.
Ég prufaði að setja á hana hálsól, hún verður að vera orðin ólavön ef hún fer að vera úti. Það var ekki laust við að það væri fyndin sjón. Hún skildi ekkert í þessum bjölluhjómi sem heyrðist við hverja hreyfingu og hún sat á afturlöppunum og reyndi að nota framlappirnar til að ná í þennan hlut sem hún sá ekki. Ég hafði ólina ekki lengi á henni, hún verður að smá venjast henni.
Við Nína fórum í náttfatamorgunmat til Dandýjar en Dandý býr hér í næstu götu við mig. Nína svindlaði og kom uppdressuð eins og hún væri að fara í messu. Sagðist hafa verið að koma af bæjarmálafundi. Hún hefði nú getað farið á náttfötunum á fundinn og sagst vera að fara í náttfatamorgunmat á eftir. Það hefði ég gert.
Ég ætlaði að vinna í dag, en það er svo vorlegt úti, ég ætla frekar að skella mér á Seyðisfjörð að heimsækja mömmu.
Svo segi ég bara Mírek, til hamingju með afmælið í dag.

|