Að versla í heimabyggð
Í minni heimabyggð er afbragðsgóð þjónusta í flestum fyrirtækjum.
Það heyrir til undantekninga að maður fái ekki góða þjónustu. Í sérverslunum er manni tekið með bros á vör og þó maður kaupi ekkert þá lætur afgreiðslufólkið ekki eins og það hafi sóað tíma sínum í að veita aðstoð. Bíður mann bara velkomið aftur.
Ég er eins og flestar konur þannig að ég vil vera þokkaleg til fara, en ég er líka eins og margar konur á mínum aldri oft í hálfgerðum vandræðum þegar að fatakaupum kemur. Það er eins og fötin séu flest sniðin á títiprjóna með flata bringu.
Þegar ég rangla um í fatabúðum í Reykjavík, finn ég sjaldnast eitthvað sem bæði er fyrir minn smekk og passar á mig.
En hér heima á Egilsstöðum á ég aldrei í vandræðum með að kaupa mér föt. Ástæðan er ekki sú að hér fáist sérsaumuð föt á þéttholda konur með brjóst, heldur er ástæðan sú að það vill svo heppilega til að hér er landsins besta fatabúð.
Þar fást öll helstu fatamerkin mín og þær systur Þura og Magga sem reka verslunina Sentrum eru afar snjallar að finna á mann falleg föt í réttum stærðum. Ég þarf bara að segja að hverju ég er að leita og þá koma þær með eitthvað fínt og fallegt. Reyndar eru þær svo snjallar að þegar ég kem inn og er bara að leita að buxum, þá fer ég gjarnan með topp, bol, peysu eða eitthvað annað með mér heim líka.
Nú svo af því að ég er stutt til hnésins þá gerir ekkert þó buxur séu of síðar því við höfum líka frábæra saumakonu, hana Láru, sem styttir og lagar hverja flík.
Á Höfn er líka svona fín fatabúð, Lónið og þar er líka svona fín þjónusta.
Flest öll mín föt eru úr þessum tveimur verslunum.
Þegar ég var í búðinni í dag hitti ég konu og við fórum að spjalla. Hún hafði orð á að ég væri fín og mér fannst gaman að geta sagt henni að öll fötin mín að skónum meðtöldum væru úr okkar fínu fatabúð, Sentrum.
Að versla í sinni heimabyggð, það er málið.