29 febrúar 2008

29. febrúar

Jæja er ekki verið að svindla auka vinnudegi inn á launþega landsins.
Ég vinn reyndar bara fram að hádegi í dag því það er runninn upp ferðadagur.
Veðrið er yndislegt, þó ekki sjái til sólar. Veðurspáin er ekkert sérstök en hvað um það, þetta verður örugglega fínn túr og skemmtilegur.
Í fyrrinótt fór mamma fram úr rúminu sínu og lærbrotnaði. Það var flogið með hana til Akureyrar og Anna systir fór með henni.
Það var langt liðið á dag þar til ég frétti af því hversu alvarlegt þetta væri og þegar ég loksins fékk fréttir af því að þetta væri ekki opið brot og að þetta liti ekki svo illa út, þá var eins og öll orka liði úr kroppnum á mér og niður á gólf. Ég var svo úrvinda í gærkvöldi að ég bara laka inn í draumalandið eftir að hafa farið í bað og klárað að taka mig til fyrir Kverkfjallaferðina.
Lærbrot er alvarlegt mál fyrir svona fullorðna konu, mamma verður 87 ára 15. mars nk. en við bara að vonum það besta og ég bið að Guð láti henni batna fljótt og vel. Mér finnst alveg nóg á þessa elsku lagt þó ekki bætist fótbrot við. En ég er þakklát fyrir notalega stund sem ég átti með mömmu í fyrradag.
Við fórum allar í bað í gærkvöldi, ég og kisurnar. Ég notaði tímann meðan það rann í baðið og spjallaði við Guðlaugu mágkonu í símann. Svo heyrði ég bara splass og sull og stökk inn á bað. Þar komu tvær holdvotar kisur upp úr baðkarinu. Ekki laust við að það væri fyndin sjón. En við erum allar hreinar og fínar í dag, svo mikið er víst.
En nú er Lata Gréta að fara á fjöll og ég óska öllum góðrar helgar.

|