Kamína
Í gærkvöldi var kamínan í Skógarkoti vígð.
Ég var reyndar búin að afskrifa það að vígja hana um helgina því ég átti ekki eldivið og mér finnst ferlega blóðugt að borga á annað þúsund krónur fyrir einn smá pokaskjatta af eldiviði úr Hallormsstaðaskógi.
Ég var nú bara svona að stússa á heimilinu eftir vinnu í gær þegar ég heyrði sagarhljóð úti og þegar ég fór að athuga málið var kappinn hann Maggi mættur með vélsög og var að snurfussa tré sem hafa laskast í veðrunum í vetur.
Það kom út úr þessu ágætis eldiviður og eftir kvöldmatinn var kveikt upp.
Þetta lukkaðist aldeilis vel og það skíðlogaði. Fyrst fuðraði jólatréð mitt og svo fór að snarka í birkinu. Ég átti ekki von á að viður beint úr rjóðrinu myndi loga svona vel.
Klófríður þurfti að kanna þetta furðufyrirbæri og hún hefði örugglega stokkið á eldinn ef ekki hefðu verið glerhurðir fyrir, hún stóð á afturlöppunum, studdi framlöppunum á kamínuna og mændi inn í eldinn.
Nína vinkona kaus að fara ferkar í eitthvað fínt matarboð með sveitastjóranum á Djúpavogi, en að koma í Skógarkot, svo hún missti af herlegheitunum. Ég verð bara að bjóða henni sérstaklega í kakó og kamínueld eitthvert kvöldið.