08 mars 2008

Menningarreisan

Lenti í Reykjavík á fimmtudagskvöldi eftir frekar leiðinlegt flug. Flugtakið var held ég bara það versta flugtak sem ég hef lent í. Vissi eiginlega ekki hvort heldur ég ætlaði að verða flugveik eða hrædd. Maginn var alla vega farinn að reyna að troðast upp í hálsinn og núna veit ég hvers konar tilfinning það er að finnast blóðið frosið í æðunum.
Föstudaginn notuðum við Nína í smá Kringlurangli en fórum svo í Þjóðleikhúsið í að sjá Sólarferð. Ég hefði nú mætt í bikiníi ef ég hefði vitað að það ætti að hafa svona rosalega mikinn hita í leikhúsinu. Við vorum alveg að bráðna. Ég var satt að segja dauðfegin að sleppa aftur út í svalt kvöldloftið. Svo var leikritið eiginlega bara barn síns tíma.
Næst tókum við hús á Vínbarnum. Þar var fullt af fullorðnu fólki sem við nánari skoðun var á svipuðum aldri og við og kannski svolítið eldra líka. En það tók óhemjulega langan tíma að fá afgreiðslu á barnum því maðurinn sem var á undan virtist halda að hann væri staddur í vínsmökkunarhúsi en ekki á venjulegum bar - hann hafði svo rosalega þörf fyrir að stúdera vínin og finna að glösunum. Eftir langa mæðu gat barþjónninn gert honum nokkurn veginn til hæfis og afgreitt mig með kaffi og Nínu með eitt hvítvínsglas.
Svo höldum við bara áfram að upplifa höfuðborgina og drekka í okkur menninguna.

|