09 mars 2008

Út að borða í borginni

Í gær hitti ég æskuvinkonurnar í bröns upp við Elliðavatn. Fór heim með boðskort í fyrsta fimmtugsafmæli hópsins.
Svo fórum við Nína í mikla gönguferð í Smáralindinni þar sem við gengum lappirnar upp að hnjám og héldum kortunum heitum í kortavélunum.
Þá var nú stefnan tekin á Hverfisgötuna þar sem við komum okkur vel fyrir hjá Gunnhildi og hvíldum lúin bein fyrir kvöldið.
Við ætluðum út að borða og í bíó. Til að vera vissar um að borða í rólegheitum þá fórum við tímanlega á Asíu, fengum borð og pöntuðum okkur eitthvað girnilegt af matseðli. Spurðum í leiðinni hvort það tæki langan tíma að afgreiða okkur. "Nei, nei, bara smá stund" var svarið. Hálftíma síðar spurðum við hvort það væri ekki von á matnum innan tíðar. "Jú, bara eftir nokkrar mínútur" nú, en þegar við vorum búnar að bíða í þrjú korter gengum við fastar á þjónustustúlkuna og spurðum hvort það væri engin von um mat handa okkur. "Ja, það er verið að klára að afgreiða stóran hóp og svo eftir svona 10 mínútur kemur að ykkur".
Við vorum orðnar glorsoltnar og sáum að við færum að verða of seinar í bíóið svo við bara stóðum upp og fórum upp í Smáralind, pöntuðum pizzu á Pizza hut og sáum að þetta myndi sleppa.
En tíminn leið, við spurðum hvort pizzan færi nú ekki að koma. Þjónninn kom með munninn fullan af afsökunum því pöntunin okkar hafði lent til hliðar.
Áttum við bara ekkert að fá að borða í þessari menningarreisu?
Það sem átti að vera "út að borða í rólegheitum" endaði í því að gúffa í sig pizzu á 10 mínútum. En þjónninn baðst margfaldrar afsökunar og gaf okkur heilmikinn afslátt.
Við náðum að setjast inn í bíósalinn í miðjum auglýsingatíma svo þetta slapp fyrir horn. En myndin var góð, Brúðguminn eftir Baltasar. Reyndar þetta típíska í íslenskum myndum, geðveikar og geðstirðar konur, en góð mynd og Inga Rósa tók sig vel út sem kirkjugestur í Flatey. Gaman að verða vitni af fystu sporum hennar í kvikmyndaleik.

|