10 mars 2008

Þvílíkur dagur

Ekki byrjaði vinnuvikan vel hjá mér. Ég steinsvaf yfir mig og vaknaði við hamarshöggin hjá smiðunum í húsunum í kring.
Svo var allt fullt af verkefnum í vinnunni. Ég reyndi að ráðast skipulega á hauginn, mér hættir svo til að byrja aðeins á einu, fara yfir í það næsta og svo þar næsta, þar til ég er búin að grauta öllu og vinnst ekkert.
En þegar maður er líka að svara fyrispurnum í síma og afgreiða erindi sem ekki þola bið þá er alltaf þessi hætta.
Mér tókst að vinna nokkuð skipulega. Kl. 11.30 hringdi Rósa hárgreiðslukona og spurði hvort ég væri búin að gleyma því að ég ætti tíma í klipp og stríp. Jú, ég var búin að steingleyma því. Fór á handahlaupum út á hárgreiðslustofu og þegar ég var loksins búin þar tveim og hálfum tíma seinna var ég að farast úr stressi yfir verkefnunum sem ég hljóp út frá í vinnunni.
Af hverju þurfa allir á Egilsstöðum að aka á 10 km hraða þegar ég er að flýta mér?
En þegar ég leit yfir allt sem hafði færst úr óafgreitt yfir í afgreitt í lok dagsins þá mátti ég vel við una.
Kvöldið hef ég notað í að ganga frá þvotti með aðstoð Klófríðar. Hún hangir í mér eins og rykhnoðri síðan ég kom heim þessi elska. Liggur núna í fanginu á mér og malar.
Ég hef ekki getað tekið upp úr töskunni því Kolgríma er búin að hertaka hana sem hvíldarstað.
Það sem eftir lifir kvölds ætla ég að nota til að taka saman smá fróðleik fyrir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs - var alveg búin að gleyma því verkefni.
Svo er bara freyðibað og snemma í bólið.
Góðar stundir.

|