12 mars 2008

Ég hlakka til vorsins

Áðan var svartaþoka, eins og hendi væri veifað er hún farin.
Í gær snjóaði og snjóaði. Snjórinn settist svo skemmtilega á handriðið á pallinum og á trén. Það var eins og ég væri stödd inn í málverki.
En núna er hitinn kominn yfir frostmark og mikill raki í lofti.
Ég verð fegin þegar vorið kemur, ég er orðin leið á þessari endalausu hálku og ég held ég verði bara ánægð þegar snjórinn hverfur. Það er ekki langt í jafndægur á vori svo nú hlýtur að fara að koma betri tíð.
Annað kvöld fer ég aftur til borgarinnar. Það er út af vinnunni, ég verð að vinna í Reykjavík á föstudaginn. En þetta kemur sér vel fyrir mig því þegar ég var búin að sjá Brúðgumann langaði mig svo að sjá Ivanov í Þjóðleikhúsinu. Við Ragnheiður erum búnar að kaupa okkur miða á sýninguna á fimmtudaginn, svo allar mínar óskir rætast þessa dagana.
Í gær keyptum við Maggi okkur flugmiða til Barcelona. Þar með rætist margra ára draumur minn. Mig hefur alltaf langað til Barcelona og nú verður farið í helgarferð með flugi héðan frá Egilsstöðum 10. apríl.
Ef að veðrið verður skaplegt á laugardaginn og pallurinn verður ekki fullur af snjó, er ég að velta fyrir mér að vígja grillið sem ég keypti í fyrra. Ég hef ekki grillað síðan á síðustu öld og aldrei á gasgrilli - ég er eins og hver annar forngripur. Gott ef Gunnhildur mín fer ekki bara með mig á Þjóðminjasafnið um leið og hún lætur verða af því að fara þangað með hana systur sína eins og hún stefndi að þegar þær voru litlar. Hún skammaðist sín svo fyrir hvað Anna Berglind var forn í tali, enda var sú stutta vön því að fara með ömmu sinni um sveitir og spjalla við bændur.
Nú þegar ég hef lokið við morgunmatinn er aftur komin svarta þoka.

|