18 mars 2008

Voðalegt ástand

... er þetta.
Ég sá í fréttum í gær að ástandið á fasteignamarkaði ætti enn eftir að versna.
Fyrir um 30 árum þegar vinir mínir voru allir að fjárfesta í sínum fyrstu íbúðum og við Finnur vorum enn í skóla, þá hugsaði ég með mér að fasteignakaup væru svo rosalega flókið fyrirbæri að við Finnur myndum aldrei eignast þak yfir höfuðið.
Ég man bara hvað þessi hugmynd var brennd í kollinn á mér. Mér óx þetta svo mikið í augum.
En sem betur fer þá eignuðumst við nú húsnæði eins og lög gera ráð fyrir. Það var ekki eins flókið og ég hafði ímyndað mér. Við vorum líka heppin og keyptum á góðum tíma.
Í dag er þessi fasteignamarkaður svo mikill frumskógur að ég sárfinn til með ungu fólki sem er að kaupa sér sína fyrstu íbúð, svo ég tali nú ekki um ungt fólk sem er í námi á fullum námslánum og á svo eftir að taka húsnæðislán á okurvöxtum.
Fasteignamarkaðurinn á Íslandi er eins og Lottó. Á einum tíma er auðvelt að kaupa og ástandið í þjóðfélaginu léttir þér húsakaupin, á öðrum tíma er þetta eins og að spila rússneska rúllettu og ómögulegt að sjá hvort kaupin eiga eftir að sliga fólk þegar fram líða stundir.
Allir þurfa að eiga heimili og húsnæði. Hvernig væri að stöðugur fasteignamarkaður yrði gert að forgangsmarkmiði? Að þeir sem erfa eiga landið eigi þess kost að gera áætlanir fram í tímann varðandi íbúðakaup en þurfi ekki að spila í þessu íslenska fasteignalottói.

|