Hvað er málið?
Í janúar var maður af Jökuldal dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislegt áreit gagnvart konu.
Það er nú einu sinni þannig hjá þorra landsmanna að kynferðislegt áreiti telst ámælisvert.
Nú, svo líður tíminn og Jökuldælingar og Hlíðarmenn halda sitt þorrablót. Opinbera samkomu og bjóða til sín gestum úr öðrum sveitum.
Það var sett saman dagskrá eins og venja er á þorrablótum og ekki hefur maður heyrt um að gestir hafi verið látnir sverja þagnareið yfir því sem fram færi á blótinu. Fram til þessa hefur þótt í góðu lagi að birta myndir í fjölmiðlum frá þorrablótum og fjalla um það sem þar er í boði. Venjan er að nefndarmenn leggja mikið í dagskrá og skreytingar og eru kannski svolítið stoltir af vinnu sinni.
En maður hefur nú heyrt eitt og annað af þessu blóti.
M.a. að þema blótsins hafi verið þetta afbrot mannsins, enda var hann í nefndinni. Fyrsta sem ég heyrði var að söngskráin hefði verið eins og brjóstahaldari, en áreitið snérist um brjóstahaldara brotaþola. En það geta menn nú lesið á netinu, enda birtist dómurinn þar eins og lög og reglur gera ráð fyrir og m.a. var fullt nafn og heimili mannsins birt.
Það næsta sem gerist er að vikublaðið Austurglugginn sér ástæðu til að fjalla um þetta "skemmtiatriði" Jökuldælinga, enda óvenjulegt að þolendur í kynferðisbrotamálum verði fyrir svona uppákomum.
Nú virðast Jökuldælingar hins vegar hafa áttað sig á alvarleika málsins og í staðinn fyrir að skammast sín, þá vilja þeir hengja bakara fyrir smið og láta reka ritstjóra blaðsins og stjórnarformann, eins og hér má lesa. Hér sannast hið fornkveðna að sannleikanum er hver sárreiðastur.
Ég stend með Austurglugganum, ég þakka Einari Ben fyrir gott blað. Verst að ég er áskrifandi, annars hefði ég gerst áskrifandi að blaðinu núna. Kannski ég kaupi áskrift handa Kolgrímu og Klófríði til að styrkja blaðið.