23 mars 2008

Gleðilega páska

Upp er runninn páskadagur.
Ákaflega skýr og fagur. Reyndar skýjahula á himni en fallegt veður engu að síður.
Núna er geymslan mín fínasta herbergi hússins. Ég er búin að fara í gegnum allt dótið sem ég bara fleygði þangað inn þegar ég flutti. Búin að sortera, henda og raða. Ég er mjög ánægð með unnið verk.
Í dag ætla ég svo að skúra, skrúbba og bóna vistarverur mínar. Fara á Seyðisfjörð og færa mömmu páskaegg og svo kemur Anna systir og borðar með mér kvöldmat.
Ekki páskalamb reyndar, lambalærið sem ég á er svo rosalega stórt að það passar í matinn fyrir 6 fílelfda matháka. Ég ætla að elda lítinn hamborgarhrygg, vona að mér fyrirgefist að hafa svínakjöt á páskum.
Í gær fór ég og dáðist að nýja sturtuklefanum hennar Nínu - rosa flottur. Svo fór ég um bæinn og leit eftir köttunum sem ég passa. Þeir voru voða kátir að sjá mig - eða kannski fólst gleði þeirra bara í að fá að borða.
Kolgríma og Klófríður fóru á lappir um leið og ég, en þær drifu sig út á pall að viðra sig, ég fór bara að fá mér kaffi. Klófríður er orðin mjög dugleg að skreppa út og skila sér inn aftur.

|