09 maí 2008

Dómsmál

Við erum alltaf að frétta af afbrotum útlendinga á Íslandi.
Maður fær það næstum á tilfinninguna að Íslendingar gangi hér um með geislabauga og svo komi vondir kallar frá útlöndum og berji þá þegar minnst varir.
Ég held að það mætti aðeins skoða þátt fjölmiðla í þessum efnum.
Í gær féllu nokkrir dómar í Hæstarétti, eins og venja er á fimmtudögum. Þar á meðal var dómur sem mikið er fjallað um í netmiðlum, en tveir Litháar (takið eftir að þjóðernið er alltaf látið fylgja) eru dæmdir í 5 ára fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun.
Sama dag er kveðinn upp dómur í Hæstarétti þar sem ÍSLENDINGUR er dæmur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Ég hef hvergi séð minnst á þennan dóm í fréttum. Þó er merkilegt við þennan dóm að Hæstiréttur þyngir dóminn frá héraðsdómi.
Ég verð að segja að mér þykir þetta undarlegur fréttaflutningur. Er það aðal fréttin að útlendingar nauðga en ekki að konum er nauðgað? Er það ekki frétt að Hæstiréttur tekur skref til refsiþyngingar í nauðgunarmálum?

|