3. maí
Í dag er ungfrú Klófríður 6 mánaða.
Hún hefur setið úti á pallahandrið í morgun og virt fyrir sér umhverfið. Hlustað á fuglana kvaka í þokunni kannski furðað sig á hvað orðið hefur af þorpinu sem er vant að sjást af pallinum. Loks fékk hún leið á að hanga á handriðinu og er komin inn að fá sér morgunmat.
Við Kolgríma höfum aftur á móti haft það notalegt saman. Kúrt í bólinu, ég að lesa spennusögu en Kolgríma hefur legið ofan á mér og malað. Hún nýtur þess endrum og sinnum að fá næðis að njóta.
Nú er Klófríður komin í stuð og friðurinn úti hjá henni Kolgrímu minni, hún verður að taka þátt í eltingaleik með litlu Kló.
Það hefur legið þoka yfir bænum í morgun, en núna er að létta til, svei mér ef sólinni hefur ekki tekist að senda einn og einn geisla til okkar.
Jæja, kisurnar lagstar útaf og í Skógarkoti ríkir kyrrð og friður. Ætli ég klári ekki bara morgunkaffið og fari að huga að því að skipuleggja daginn.
Eigið öll góðan dag gæskurnar mínar.