26 apríl 2008

Aumingjagangur

Hvar er blessuð sólin?
Er hún alveg búin að yfirgefa Austurland? Það var búið að spá sólskini á morgun en nú er búið að breyta spánni og það á bara að vera skýjað. Á mánudaginn er spáð snjókomu. Í dag er hráslagalegt haustveður.
Ég hef oft verið spurð að því undanfarin misseri hvort ég ætli ekki bara að flytja suður. Dæturnar þar og svona. En ég fæ alltaf sting í hjartað, suður, nei, Guð forði mér frá því. Pabbi og mamma komu ekki með mér þegar ég fór að heiman svo ekki fer ég að elta dætur mínar.
Ég svaraði þessar spurningu síðast í flugvélinni á leiðinni til Reykjavíkur um daginn.
En þegar ég skoðaði veðurspá komandi viku þá flaug mér alvarlega í hug að kannski væri bara best að flytja suður. Fara þangað sem sólin skín.
Hvað ætti ég að gera fyrir sunnan? Humm, miðaldra kona. Og hvar ætti ég að setjast að? Auðvitað í Kópavoginum mínum kæra, þar búa allar gömlu vinkonur mínar. Ég gæti farið með Siggu í ræktina, skroppið í morgunkaffi til Önnu Stellu og droppað inn hjá Ingu þegar mig langaði.
Vinna og húsnæði væri kannski smá þröskuldur en ég hef stigið yfir hærri þröskulda um ævina.
Ég er ekki viss um að Klófríður og Kolgríma myndu þrífast vel í umferðinni fyrir sunnan. Klófríður er svo greindarskert að hún væri vís að æða fyrir bíl.
Jæja, best að hrista af sér þennan vesaldóm, klæða sig í kuldagallann og skreppa í göngutúr. Kíkja kannski í kaffi hjá einhverjum niður í þorpi og athuga hvort maður hressist ekki.

|