21 apríl 2008

Að bregað sér að heiman

... er nauðsynlegt endrum og sinnum.
Þó ekki sé til annars en að upplifa þá yndislegu tilfinningu sem hellist yfir mann þegar maður kemur aftur heim.
Annars var þetta fín borgarferð. Átti stund með dætrunum á laugardagskvöld, brá mér í heimsóknir á sunnudaginn, skannaði Ikea og Smáralindina og fór svo í leikhús um kvöldið.
Sá Gítarleikarana í Borgarleikhúsinu og skemmti mér vel. Jóhann Sigurðsson er frábær leikari og hann er eitthvað svo rosalega stór á litla sviðinu. Ég sé fyrir mér að svona munu aðdáendur Bjartmars Guðlaugssonar safnast saman á Eiðum þegar hann hverfur yfir móðuna miklu.
Fékk mjög skemmtilegt flug suður og sá vel yfir landið. Við flugum aðeins norðar en venjulega, næstum bara yfir Herðubreið sem skartaði sínum fegursta vetrarbúningi. Svo var gamana að fljúga nánast yfir Jarlhettur, ég hef aldrei séð þær frá þessu sjónarhorni sem ég fékk á þær á laugardaginn. Í dag var hins vegar skýjað yfir mest öllu landinu, en samt sá ég Kverkfjöllin.
Þegar ég ók inn í bæinn hér á Egilsstöðum, mætti ég Magga og félögum við gatnamótin við Söluskálann. Þeir voru að koma úr viku fjallaferð og komu bara á tveimur bílum því Hrollurinn dó drottni sínum við Kverkfjöll.
Klófríður og Kolgríma tóku vel á móti mér en voru samt kátastar með að fá að fara út að leika sér eftir tveggja sólarhringa inniveru.

|