16 apríl 2008

Eru Hafnfirðingar heimskir?

Samkvæmt íslenskri fyndni eru Hafnfirðingar mun verr gefnir en allur þorri þjóðarinnar.
En þeir Hafnfirðingar sem ég hef kynnst skera sig ekkert frá fólki úr öðrum bæjarfélögum. Eru kannski bara betur gefnir en gengur og gerist, eins og hún Nína vinkona mín. Ég man reyndar eftir einni opinberri persónu úr Hafnarfirði sem mér finnst svolítið langt frá því að vera ein af björtustu perunum í seríunni.
Hvað með Pólverja? Eru þeir upp til hópa latir glæpamenn?
Alla vega ekki þeir Pólverjar sem ég hef kynnst. Þeir eru ekkert frábrugnir Íslendingum, alla vega ekki hvað heiðarleika og dugnað snertir.
T.d. hann Mirek tengdasonur minn. Hann er frá Varsjá. Ég held að hún Gunnhildur mín hefði ekki fengið betri eiginmann þótt hún hefði leitað með logandi ljósi um allt Ísland. Mirek er líka fyrirmyndar tengdasonur og það sem kannski greinir hann frá venjulegum Íslendingi er að hann er kurteisari og meiri sjentilmaður.
Þegar ég var um fermingu fór ég með foreldrum mínum til Færeyja. Þar var okkur alls staðar tekið með mikilli gestrisni bara af því að við vorum Íslendingar. Eftir að Smyrill, seinna Norræna, kom til sögunnar 1975 þá breyttist viðhorf Færeyinga til Íslendinga af því að einhver rumpulýður hafði komið siglandi frá Íslandi og spilað rassinn úr buxunum þar.
Þegar ég kom til Færeyja 1978 áttum við varla að fá gistingu á hótelum bara fyrir það eitt að við vorum Íslendingar. Viðmót Færeyinga til Íslendinga hafði snarbreyst.
En síðast þegar ég kom til Færeyja hafði viðmótið sem betur fer breyst aftur í átt til þess sem áður var.
Ég held að menn ættu aðeins að hugsa sinn gang áður en þeir fella sleggjudóma um heila þjóð út frá einhverjum vafasömum einstaklingum. Satt að segja held ég að Ísland hafi ekki alið af sér færri afbrotamenn og auðnuleysingja en Pólland, alla vega ekki miðað við okkar vinsælu höfðatölu.

|