Hundalíf
Skrapp í gær á Seyðisfjörð að knúsa mömmu og sýna henni myndirnar frá Barcelona.
Svo var ferðinni heitið inn á Velli, upp í Gunnlaugsstaði að skoða hundaræktina hjá Hjördísi og Steina.
Þar tóku á móti mér fjórir Siberian Husky og einn Labrador. Ég fékk svo góðar móttökur að ég ætlaði bara ekki að komast upp að dyrunum. Þeir þurftu allir að nusa af mér og heilsa mér. Voðalega fallegir hundar.
En í kjallaranum lá hún Róma með 6 litla hvolpa á spena. Ég hálf vorkenndi henni því það var svo mikill áhugi hjá þeim að ná sér í næringu. En mikið afskaplega er nú ungviðið alltaf fallegt og þessir hvolpar heilla mann alveg upp úr skónum.
Klófríður sá hund í fyrsta skipti í gær. Það komu í Skógarkot konur með lítinn hund. Hann fékk nú ekki að koma inn en Klófríður var úti og ég hélt að hún hefði horfið endanlega út í skóg, hún varð svo hrædd. En Kolgríma mín setti upp kamb, tvöfaldaði skottið sitt og hvæsti duglega á hundinn. Hann ákvað að vera ekkert að abbast upp á þetta stóra ljón sem allt í einu var komið þarna.
Sólin skín enn einn daginn og veðrið er yndislegt. Í kvöld er það svo fiskisúpa og stelpukvöld með Nínu vinkonu.