18 apríl 2008

Vorið er komið og grundirnar gróa

Ég hef verið í miklu vorskapi í gær og í dag.
Hef ekið um með hátt stillta tónlist, sungið með þegar ég er komin út á þjóðveginn - eins og á leið minni til Seyðisfjarðar í gær.
Ég kann ekki við að syngja hástöfum á ferðum mínum um þorpið. Annars finnst mér alltaf gaman að sjá fólk syngja undir stýri, maður sér það samt ekki oft. Ég syng aldrei í baði, bara úti á þjóðvegunum. Ég syng mjög oft á Fjarðarheiðinni.
Í dag fór ég í fyrstu hjólaferð sumarsins. Lét mig renna niður á bensínstöð og bætti lofti í dekkin. Hjólaði svo syngjandi kát um götur bæjarins.
Þegar ég kom heim mokaði ég snjó af pallinum. Mikið hlakka ég til að setja upp garðhúsgögnin.
Annars er ég að koma úr matarboði hjá Nínu. Við sátum tvær og gæddum okkur á unaðslegri fiskisúpu og nýbökuðum múslibollum. Slúðruðum smá og spjölluðum um lífið og tilveruna.
Afskaplega líður mér eitthvað vel. Notalega þreytt eftir hjólatúrinn og moksturinn og sólsetrið hér í Skógarkoti er ekki síður fallegt en vorkvöld í Reykjavík.
Lífið er ósköp ljúft. Já og meðan ég man, mér finnst Eurovision-myndbandið okkar fyndið og flott.

|