30 apríl 2008

30. apríl

Það er allt á kafi í snjó.
Framan við bílskúrinn er metersdjúpur snjóskafl og því komst ég ekki af stað með Súbba minn í morgun. Snjóskafl og snjóskafl er ekki það sama og þar sem þetta var samanþjappaður og blautur snjór ákvað ég að láta bílinn eiga sig. Ef þetta hefði verið púðursnjór hefði ég bara látið vaða í gegnum skaflinn.
En ég dró fram snjóbuxurnar, gönguskóna, legghlífarnar, húfu og vetrarúlpu og tölti af stað í vinnuna.
Alltaf skal maður væla í lok vetrar yfir að vorið láti standa á sér. En veðurguðirnir fara ekki eftir dagatali okkar mannanna og þó svo að það sé kominn sumardagurinn fyrsti hér á Fróni, þá vorar bara aldrei fyrr en seinni partinn í maí hér á Héraði. Allan tímann frá sumardeginum fyrst og fram að vorkomu bíð ég með óþreyju eftir betri tíð.
Hvað mega aumingja farfuglarnir segja? Í gær sá ég stelk sem kafaði snjóinn. Hvar skyldu allir fuglarnir halda sig í dag?

|