Hráslagakaffi
Þegar ég var ung og sæt þá vann ég í Hallormsstaðaskógi.
Vinnudagurinn var frá kl. 8 á morgnanna til kl. 19.00 á kvöldin. Við fengum góðan morgunmat áður en við héldum til vinnu en svo var ekkert hlé tekið fyrr en kl. 12 að við fórum í mat. En við fengum líka langan matartíma og á sólskinsdögum fórum við öll saman í sólbað í hádeginu. Það voru ljúfir dagar.
En það kom fyrir, sérstaklega á vorin, að það var kalt úti og jafnvel rigning. En jafnvel þeir dagar voru góðir, því þá fengum við hráslagakaffi kl. 10 uppi í skemmu. Svo voru dagar sem voru svona skítsæmilegir, eiginlega ekkert hráslagalegir en heldur ekkert sólskin bara svolítið kalt og þá var það alltaf spennan - verður hráslagakaffi í dag. Svo brutust út fagnaðarlæti þegar einhver sást rogast með gulan bala fullan af glösum og kaffi frá Mörkinni yfir í skemmu.
Jibbý - hráslagakaffi.
En ég er ekki að fara í hráslagakaffi núna kl. 10, jafnvel þótt veðrið bjóði upp á löglegt hráslagakaffi. Ég er að fara í náttfatakaffi til Nínu. Við Nína og Dandý eigum það nefnilega til að borða saman morgunmat á sunnudögum og það er skilyrði að mæta í náttfötunum.
Svo er slúðrað og spjallað. Gaman, gaman.