Haust í Selskógi
Ég fann gömlu bloggsíðuna mína, kannski maður bloggi smá.
Það er búið að vera einstaklega fallegt haustið í Selskógi þetta árið. Það er komið fram í miðjan október og enn sér maður græn lauf á trjám, aspirnar skarta gulum laufblöðum, reyniviðurinn rauðum og glansmispillinn er fjólublár í garðinum mínum.
Skógarþrestirnir hafa hreinsað megnið af reyniberjunum og hafa lokið sínu árlega haustfylleríi með tilheyrandi drykkjusöngvum. Gæsirnar eru flognar suður á bóginn í stórum hópum. Þessar sem ekki höfnuðu í frystikistum landsmanna.
Ég er búin að setja niður yfir hundrað túlípanalauka svo það ætti að vera fagurt yfir að líta við Skógarkot næsta sumar.
Af öðrum haustverkum er það að frétta að vinkona mín gaf mér heimsins besta hrútaberjahlaup, við Maggi fórum og tíndum lerkisveppi og við ætlum að drífa okkur í sláturgerð áður en sláturtíðinni lýkur.
Ég reyni að láta kreppuna ekki svipta mig hamingjunni - það er stundum erfitt eins og núna þegar fjárlagafrumvarpið sem lagt hefur verið fyrir þingið boðar stórfelldan niðurskurð í heilbrigðismálum á Austurlandi.
Ég var á tveimur mótmælafundum í gær. Annars vegar á Seyðisfirði og hins vegar á Egilsstöðum. Þetta voru fjölsóttir fundir og ég vona að þeir hafi haft eins djúp áhrif á þingmennina sem mættu eins og þeir höfðu á mig.