07 nóvember 2009

Að fórna mannslífum fyrir menningu

Ég skil svo illa háar fjárhæðir.
Þegar talað er um Icesave þá skil ég ekki tölurnar þær eru svo háar að ég get ekki sett þær í neitt samhengi.
Um daginn heyrði ég það í fréttum að það kostaði einn milljarð á ári að reka alla íslensku dómstólana. Þarna eignaðist ég skiljanlegt viðmið þar sem ég er að vinna í dómstólakerfinu.
Nú miða ég allt við þennan eina milljarð. Ef neyðarlögunum verðu hnekt fyrir dómi leggst á okkur aukareikningur upp á 620 milljarða - rekstur íslenska dómstólakerfisins í 620 ár.
Þegar ég lærði mannkynssögu í barnaskóla las ég um alls konar mannvonsku varðandi byggingu pýramítanna í Egyptalandi - mönnum var þrælað þar út og margir létu lífið við þessar byggingar.
Á miðöldum voru þjóðir Evrópu skattpíndar út í eitt því það þurfti að fjármagna margar fagrar kirkjubyggingar. Ég man hvað ég fann til með fátækri alþýðu í Evrópu miðaldanna og þakkaði fyrir að þessir tímar væru löngu liðnir.
Á Íslandi myndi það aldrei gerast að alþýðan yrði skattpínd til að hægt væri að byggja flottar kirkjur og hallir.
En hvað er að gerast á Íslandi í dag? Ég heyrði í fréttum að ríkið legði 900 milljónir á ári í bygginu Tónlistahússins í Reykjavík. Það væri í sjálfu sér allt í lagi ef það væri ekki árið 2009 og almenningur horfir fram á mikinn niðurskurð í heilbrigðis- og menntakerfinu. Almenningur horfir fram á skert lífskjör og flestir þurfa að skera niður heimilisútgjöldin.
Ég held að ef það fréttist af hjónum sem myndu skera niður lyfjakostnað hjá börnum sínum eða hættu að kaupa föt eða skóladót fyrir krakkana sína af því að hjónin vildu ekki skera niður á menningarsviðinu þá yrði fljótt haft samband barnaverndaryfirvöld.
Það þættu lélegir foreldrar sem settu leikhús og bíóferðir ofar á útgjaldalista heimilisins en velferð barna sinna.
Ekki þar fyrir að auðvitað er gaman fyrir okkur að sjá Tónlistahúsið rísa. En mér finnst það öllu nauðsynlegra að gæta hófs í niðurskurði hjá sjúkrahúsunum. Þangað sækja einstaklingar sem eiga líf sitt undir því að fá viðeigandi þjónustu. Krabbameinsveik börn, nýrnasjúklingar, hjartasjúklingar o.s.frv. Það er stutt síðan að við sáum þátt í sjónvarpinu um mikilvægi Grennsásdeildar.
Mér þykir leiðinlegt að mín kynslóð eigi eftir að fá þann vitnisburð í sögubókunum að hafa fórnað mannslífum fyrir íburðarmikinn og óhóflegan lífsstíl.

|