Gamaldags kaupstaðaferð
Þessi ferð í höfuðstaðinn hefur gengið vel.
Ég hef náð að útrétta heil ósköp enda var ég með þéttskrifuð minnisblöð með mér.
Maður skyldi ætla að best væri að versla í sinni heimabyggð en á Egilsstöðum eru bara mjög fáar verslanir.
Margfeldisáhrifin sem virkjanasinnar boðuðu að yrðu vegna álversins á Reyðarfirði hafa einhvern veginn farið fyrir ofan garð og neðan hjá okkur Héraðsmönnum.
Fyrir 20 árum var hægt að kaupa allt sem maður þurfti á Egilsstöðum. Byggingarefni, heimilistæki, gólfefni, borðdúka, fatnað, álnavöru, gjafavöru, listmuni, skó, matvöru og bara allt sem mann hugsanlega gat vantað.
En nú eru aðrir tímar. Ég man að við sem vorum á móti þessum framkvæmdum fyrir austan fengum að heyra ásakanir eins og hvort að við vildum að Austurland yrði Strandir framtíðarinnar - ekkert yrði hægt að gera nema að stunda gönguferðir um eyðibyggðir. Hvort við vildum færa lifnaðarhætti á Austurlandi aftur til 19. aldar.
Ég held að við séum komin töluvert aftur fyrir þann tíma þrátt fyrir að búið sé að virkja og byggja álver - kannski bara aftur til 1250 þegar Íslendingar voru að fara að ganga Noregskonungi á hönd - en núna hefur Noregskonungur breyst í Evrópusambandið. Og þegar við verðum komin þangað þá getum við farið að selja gönguferðir um eyðibyggðir á Austurlandi.