02 júní 2009

Lífið er snilld

Helgin er búin að vera meira en frábær.
Við Maggi fórum í jómfrúarferðina með hjólhýsið. Dvöldum á Húsavík í bongóblíðu alla helgina. Ja, eða það er að segja, við þurftum aðeins að fresta för vegna vindstrekkings á Biskupshálsi á föstudag - ekki vildum við að húsið fyki út í veður og vind.
Útgerðin bar þess merki að það voru nýgræðingar á ferð, þrátt fyrir mikinn undirbúning og mikil heilabrot um hvernig hjólhýsafólk hagar lífi sinu.
Við komum fyrst á tjaldstæðið á Húsavík og plöntuðum húsinu á mitt tjaldstæðið - þar var svona rafmagnskassi sem við töldum okkur geta haft not af. Svo fór fólk að tínast á svæðið og allir röðuðu sér pent á jaðar tjaldsvæðisins. Ætli við reynum ekki að gera það næst.
En við höfðum ekki mikið gagn af þessum rafmagnskassa fyrsta sólarhringinn því við fengum dótið ekki til að virka - en fundum það út að lokum.
Við eigum ekki ferðagrill svo það var steiktur ORA-fiskbúðingur í öll mál. Reyndar finnst mér það vera ekta útilegumatur - fæ nostalgíukast því þetta var vinsæll matur á fjöllum í gamla daga.
Við fengum góða gesti, en heiðursgesturinn var Magnús Atli Fannarsson, hann bræddi okkur afa sinn alveg hreint með sínu fallega brosi og skemmtilegu töktum.
Við brunuðum fyrir Tjörnes, í Ásbyrgi, skoðuðum Húsavíkukirkju og mældum bæinn á reiðskjótum postulanna.
Í gærkvöldi var tekin smá rassía í garðinum við Skógarkot og lambakjöti skellt á grillið.
Lífið er náttúrulega bara ljúft ef maður sökkvir sér ekki um of í fréttir af landsmálunum.

|