13 apríl 2009

12 spora kerfi fyrir fjármálamenn

AA samtökin á Íslandi fögnuðu 55 ára afmæli sínu á föstudeginum langa.
Samtökin eiga gott kerfi til að byggja menn upp til að takast á við nýtt og heilbrigt líf.
Það er 12 spora kerfið.
Það hafa margir nýtt sér þetta kerfi, matarfíklar, spilafíklar, eiturlyfjafíklar og fólk sem á ekki við fíknir að stríða heldur vill bara ná betri tökum á tilverunni.
Fjármálamenn þjóðarinnar eiga margt sameiginlegt með alkóhólistum. Þeir hafa stjórnast af gróðafíkn og eru nú komnir í þrot. Þeir hafa náð botninum eins og alkóhólistar sem hafa drukkið frá sér fjölskyldur sínar, heimili og vini.
Er ekki hægt að skikka þessa menn á kröftugt 12 spora námskeið?
Hvernig væri að þeir viðurkenndu vanmátt sinn gagnvart fjármagni og að þeim var orðið um megn að hafa stjórn á hlutunum?
Hvernig væri að þeir finndu sér sinn æðri mátt í stað Mammons?
Hvernig væri að þeir gerður rækileg siðferðisleg reikningsskil?
Hvernig væri að þeir bæðu Guð í auðmýkt að losa sig við brestina?
Hvernig væri að þeir bættu fyrir brot sín milliliðalaust?
Hvernig væri að þeir yrðu fyrir andlegri vakningu og flyttu öðrum gróðafíklum þennan boðskap?
Ef allir þeir sem á einhvern hátt hafa sólundað almannafé eða stundað hafa óheiðarleg pappírsviðskipti, myndu fara í slíka sjálfsskoðun á ég von á að bæði fjármálafíklunum og þjóðinni gengi betur að skapa gott þjóðfélag þar sem góð og mannbætandi gildi yrðu sett í öndvegi í stað gróðafíknarinnar

|