Löt og ekki löt
Ég er búin að vera þokkalega dugleg í dag, en núna er ég ferlega löt.
Í morgun var loftið fullt af fuglasöng og gæsagargi. Gæsagarg er vorhljóð hér á Fljótsdalshéraði enda er gæsin farfugl hér.
Veðrið var yndislegt og vor í lofti svo ég tók af rúmunum og allar sængur hafa fengið að vera úti að viðra sig í dag, enda er von á fólki í Skógarkot um páskana.
Svo hef ég þvegið og hengt þvott út á fínu snúruna mína í fyrsta skipti á þessu ári.
Ég skrapp í kaupfélagið mitt og þar er allt á hverfanda hveli. Það stefnir greinilega í að fermetrum verslunarinnar fækki því fatadeildin er öll á ferð og flugi og búið að þjappa öllum vörum framar í búðina.
Þetta er ekkert svo slæmt enda er það á við góða heilsubótagöngu að fara í allar deildir kaupfélagsins, en ég er hrædd um að vöruúrvalið eigi eftir að skerðast.
Kannski gerir það svo sem ekkert mikið til heldur, maður er bara orðinn svo vanur að fá allt sem mann vantar en ekki bara vanta það sem maður fær.