28. mars
Ég sem hélt að vorið væri komið.
En veðrið er samt búið að vera yndislegt í dag, þrátt fyrir að snjórinn hafi aftur þakið jörðina.
Ég fékk mér góðan göngutúr niður í þorp í vetrarsólinni. Með lítinn bakpoka, nýja dökkbrúna hárið mitt og svört sólgleraugu. Það heilsaði mér enginn að fyrra bragði.
Í kaupfélaginu okkar er alls konar glingur á tombóluprís. Einhvern tíma hefði ég látið freistast, en ég er orðin svo varkár í peningaeyðslu eftir bankahrunið að ég lít á allt svona dót sem óþarfa.
Hins vegar keypti ég mér andlitskrem sem eiga að draga úr hrukkumyndun húðarinnar. Ég fyllti litla bakpokann af sjampói og kremum - kannski er það álíka óþarfi og þetta glingur sem ég lét ekki freistast af.
En kisurnar hafa alla vega áhuga á að skoða það sem ég kom með heim, þær eru á kafi í bakpokanum að reyna að finna út hvort eitthvað gott handa þeim leynist þar.