15 mars 2009

Þau eiga afmæli í dag

Mamma er 88 ára í dag og kærastinn minn 52 ára.
Af því tilefni hef ég bakað franska súkkulaðiköku og er að fara niður á Seyðisfjörð með hana þar sem hún verður snædd með afmæliskaffinu. Guðlaug mætir með bláberjapæ svo það stefnir í góða afmælisveislu.
Maggi ætlar loksins að koma með mér að heimsækja mömmu. Ég er oft búin að segja mömmu sögur af kærastanum, hvað hann sé myndarlegur og skemmtilegur, en ekki hefur mér tekist að draga hann yfir Fjarðarheiðina til að heilsa upp á aldraða móður mína.
Síðast þegar ég heimsótti mömmu sagðist hún vera farin að halda að þessi kærasti minn væri bara tilbúningur, svo loks lét Maggi undan, safnaði kjarki og samþykkti að koma með mér.
Kreppuhlekkirnir eru að falla af mér með hækkandi sól og ég er farin að ferðast um heiminn á Google earth og við Maggi látum okkur dreyma um ferð út í heim í sumar. Nokkuð sem ég hef sko ekki verið til viðtals um í allan vetur.
Hvort sem við förum til Ítalíu eða Tyrklands, upp á hálendi Íslands eða bara í lautarferð út í skóg þá er ég farin að hlakka til sumarsins.

|