28 febrúar 2009

Til fyrri lifnaðarhátta

Alveg var það yndislegt veðrið á Egilsstöðum í dag.
Það var ekki skýhnoðri á himni, lítið frost og logn. Í svona veðri er ómögulegt að hanga inn í húsi allan daginn svo ég ákvað að fá mér göngutúr niður í þorp.
Klófríði leist greinilega vel á uppátæki mitt að fara fótgangandi að heiman og ákvað að slást í för. Hún hoppaði á sínum fjórum loppum í kringum mig á göngustígnum niður í gegnum skóginn en sem betur fer ákvað hún loks að fara frekar út í skóg að leika sér heldur en að fylgja mér alla leið. Ég ætlaði nefnilega í kaupfélagið okkar og þar er ég ekki viss um að kisur séu velkomnar.
Þegar ég kom að Valaskjálf ákvað ég að kíkja aðeins á einhvern farandsölumarkað sem þar hefur verið settur upp og auglýsti úrval af pússluspilum fyrir krakka úr krossviði. Kannski að Gosi væri þar að kaupa sér pússl. En nei, engir krakkar úr krossviði sjáanlegir. Ég keypti mér hins vegar fílt til að setja undir stóla og borð.
Ég hélt áfram för minni, spjallaði við nokkra vini og kunningja sem á vegi mínu urðu. Kíkti í Te og kaffi og þá fékk ég svona aðkenning að verslunargleði. Eitthvað sem hefur lagst í dvala í kreppunni. Keypti m.a. teketil sem er eins og gulbröndóttur köttur. Afskaplega glaðlegur ketill. Svo keypti ég auðvitað fínt te.
Mér leið bara eins og ég væri komin hálft ár aftur í tímann. Tríttlandi um bæinn að kaupa fáfengilega hluti, bara eins og kreppan væri víðsfjarri.
Í kaupfélaginu keypti ég algerlega óþarfar servéttur, litlar og sætar með eplamynstri. Svei mér þá, ég var bara alveg að sleppa mér í kaupæðinu.
Í fyrramálið koma nokkrar vinkonur í sunnudagsstelpumorgunmat og þær ætla allar að mæta á náttfötunum. Við skemmtum okkur við þetta í fyrravetur, en stelpumorgunmatur á sunnudögum er eitt af því fjölmarga sem þessi kreppa hefur reynt að koma fyrir kattarnef.
Svei mér þá, lífið getur verið ótrúlega ljúft og gott þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu.

|